Yin, Yang og Chi
Yin og Yang er upphaf alls. Kyrrstaða er ekki til og allt fylgir ákveðinni hringrás. Það má líkja Yang við sól, útþenslu, dag, hita en Yin er andstæðan; nótt, kuldi, stilla. Þau eru óaðskiljanleg og hvorugt er hinu mikilvægara, þau eru til staðar í öllu, á stöðugri hreyfingu og í dínamísku jafnvægi.
Eins og dagur sem líður inn í nóttina og sólarljós sem lýsir upp skugga. Ef Yin verður of veikt verður Yang of sterkt og getur t.d. valdið höfuðverkjum, háum blóðþrýstingi, útbrotum, stressi, svefnleysi og kvíða. Ef Yin verður of sterkt verður Yang of veikt og getur valdið slímmyndun, vökvasöfnun, sleni, kulda og þyngslum í fótleggjum. Alltaf fara þau saman þessi tvö og það er aðeins á dauðastundinni sem þau skiljast að.
Chi er orka
Chi er orka, lífsorkan, og finnst allsstaðar þar sem Yin mætir Yang og himinn mætir jörð. Þetta er krafturinn sem heldur himintunglunum, blóðinu og líkamanum á hreyfingu.
Þú sérð Chi í þrótti fólks og þegar Chi í mat og drykk er gott er maturinn bragðmikill með sterkan lit og skilar til líkamans góðu Chi. Þeir sem búa yfir góðu Chi eiga auðvelt með að koma sér að verki og vinnast verkin vel. En við fáum ekki chi aðeins úr því sem við borðum heldur líka úr loftinu sem við öndum að okkur og sum part úr orkunni í nýrunum. Í samskiptum gengur Chi á milli manna og maturinn sem við borðum bragðast af Chi kokksins. Skortur eða stöðnun á Chi getur lýst sér í offitu, æxlum, blöðrum á eggjastokkum, hand- og fótkulda, almennri deyfð og ýmsu fleiru.